HVAR ER FJÁRSJÓÐURINN ?

.

Þú sérð sætan prins. Hjarta þitt tekur kipp. Guð, hugsar þú, þetta er maðurinn minn.

Þú ferð til kóngsins, pabba hans. „Kæri kóngur, má ég giftast prinsinum, syni þínum?“

Hann lítur á þig og segir: „Upp í fjöllum, hér fyrir norðan, er kastali. Í honum býr dreki sem liggur á gulli, heilmiklum fjársjóði. Ef þú getur drepið drekann, náð í fjársjóðinn og komið með hann til mín, þá mátt þú ganga að eiga prinsinn.“

Þú heldur af stað. Þú kemur að kastala, gengur yfir stóra vindubrú og inn í kastalagarð. Garðurinn er tómur. Þar er enginn dreki. Það eina sem blasir við eru tólf dyr, hurðir merktar 1 til 12. Þar fyrir innan eru væntanlega tólf herbergi. 

Þú sérð í hendi þér að drekinn hlýtur að vera í einu þessara herbergja. Humm, hugsar þú. Hvar er drekinn? Í hvaða herbergi? 1., 3., 10., 12. eða kannski 8.?

Þú veist að þú þarft að fara inn í rétta herbergið til að finna drekann og ná í fjársjóðinn.

Húsin í stjörnuspeki eru eins og herbergi í kastala. 

Ef Sólin, lífsorkan í persónuleika þínum, er staðsett í 3. húsi, þá þarftu að fara inn á þann vettvang sem 3. húsið stendur fyrir. Í öðrum herbergjum, á öðrum vettvangi, grípur þú í tómt. Þú hefur ekki fullan aðgang að lífsorku þinni.

Með öðrum orðum. Ef við dveljum í röngum herbergjum, í umhverfi sem hentar ekki upplagi okkar, þá eignumst við ekki fjársjóði. Við verðum ekki það sem við vorum sköpuð til að vera.

Hér er stutt skýring á því hvað hvert hús stendur fyrir,

1. hús: Framkoma, ímynd, persónulegur stíll, byrjun verkefna. Vörðurinn á vindubrúnni.

2. hús: Líkami, hæfileikar, verðmætamat, peningar og eignir.

3. hús: Miðlun, tjáskipti, skólar, grunnmenntun (tungumál/hreyfileikni), systkini.

4. hús: Innri maður, heimili, fjölskylda, foreldrar, ætt.

5. hús: Skapandi sjálfstjáning, rómantík, sköpunarverk, börn, nærandi leikir, leiklist.

6. hús: Vinna, þjónusta, heilsumál (líkamsrækt, mataræði).

7. hús: Samstarf, samvinna, augliti til auglitis samskipti, maki, vinir, óvinir.

8. hús: Sálrænar og veraldlegar sameignir, kynlíf, peningar annarra, fjármál, arfur. 

9. hús: Æðri menntun, háskólar, ferðalög, erlend lönd, erlend samskipti, lífstrú.

10. hús: Þjóðfélagshlutverk, stefna, markmið, fjarlægðar- og starfsímynd.

11. hús: Félög, hópsamvinna, kunningjar, óskir og framtíðarvonir.

12. hús: Heimurinn, heildin, samvitund, sálarnet, fórn, samkennd, einvera.