SAGA ÁRSTÍÐAHRINGSINS

Keðja lífsins

Ef vor og sumar ákveðins hrings er gjöfult og vel tekst að vinna afurðir og dreifa að hausti, þá verður veturinn tími hámenningar og grósku, í byggingalist, hugviti og listum. Ef uppskera er rýr þá verður veturinn erfiður og menningarstigið lágt. 

Uppskera verður sjaldan gjöful ef illa tekst til á einu tímaskeiði. Keðja er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Virða þarf því framlag allra. Saman myndum við keðju lífsins. 

Ekki ber að taka neðangreinda sögu árstíðahringsins of bókstaflega. Þetta er táknræn lýsing, saga sem á gefa til kynna það ferli sem á sér stað, almennt og í stórum dráttum.

Hrútur

Vorbyrjun. Náttúran vaknar, líf kviknar. Eldur hreinsar tún gamla tímans og undirbýr jörð fyrir sáningu. Átök geisa milli vetrar og vors, þess gamla og nýja. Berjast þarf fyrir lífi. Nýju lífi. Í mannlífinu rjúka menn upp til handa og fóta og hefja vorverk. Farið er ört úr einu í annað, eitt verkefni tekur við af öðru. Hraði er mikill. Stundum fljótfærni, en alltaf bjartsýni og hugrekki. Frumkvöðlaafl lífsins er komið á stjá. (20. mars – 20. apríl). 

Naut

Vormiðja. Gróðurmoldin iðar af lífi. Náttúran er frjósöm. Veður eru mild. Akrar eru plægðir, fræjum sáð. Unnið er að framleiðslu afurða. Í hádeginu sitja börn vorsins undir eplatrénu og njóta gjafa hinnar mildu vorjarðar, borða og elska. Á öðrum tímum er unnið af krafti. Hávorið er tími til að leggja undirstöður, fram-kvæma og njóta. Börn þessa tímaskeiðs eru staðföst og þolinmóð. Bíða þarf uppskeru. (20. apríl – 21. maí).

Tvíburi

Vorlok. Vindar vorsins feykja fræjum um grundir. Vorloftið dreifir, tengir saman og miðlar. Það er á stöðugri hreyfingu. Fyrstu vorverkin eru að baki. Veður eru góð til ferðalaga. Farið er á markaði, menn hittast, skiptast á verkfærum, málin eru rædd. Þetta er tími tengsla og fjölbreytni í orðum og athöfnum. Skráð er í náttúrugen barna þessa tímaskeiðs að vera á iði, að miðla, á hreyfingu, út um allt. Vegir eru opnir til allra átta. (21. maí – 20. júní).

Krabbi

Sumarbyrjun. Ár og fljót flytja með sér áburð og næringu. Gróður sprettur af krafti. Náttúran er í örum vexti. Byggðir eru skjólgarðar til að tré og gróður nái að dafna. Unnið er með fjölskyldunni að margvíslegum sumarverkum; hús eru byggð, fyrirtæki stofnuð. Að degi eru veiðar stundaðar í ánni, að kvöldlagi grillað á túni sveitasetursins. Börn þessa tímaskeiðs þjóna vaxtarkrafti lífsins. (21. júní – 22. júlí).

Ljón

Hásumar. Sköpunarkraftur náttúrunnar er í hámarki. Lífskraftur ólgandi, gróður skrautlegur og gjafmildur. Epli fellur úr tré í útréttan lófa. Skapað er úr efnivið allsnægtarborðsins. Kórónur vafðar úr blómum. Allt er til sýnis. Hámarka þarf uppskeru og vöxt. Því stærra og meira, því betur mun ganga að lifa komandi vetur. Unnið er að vexti og sumarsólin nýtt til að gleðjast með ættingjum, vinum og samferðafólki. (23. júlí – 23. ágúst).

Meyja

Sumarlok. Kornið er fullvaxið á ökrunum. Ávextir þroskaðir, gras í fullri sprettu. Komið er að uppskerutíma. Vinna þarf af krafti, raka saman öllu nýtanlegu og flytja í hús. Varðveita það sem gerir mönnum kleift að lifa af komandi vetur. Krafist er iðjusamra handa og augna sem sjá korn, jurtir, hnetur og ber. Börn uppskerutímans horfa til jarðar og týna allt nytsamlegt til matar. Greina milli þess sem er gagnlegt og ógagnlegt. Sýn á smáatriði er skörp. (23. ágúst – 23. september).

Vog

Haustbyrjun. Uppskera er komin í hús. Afurðir eru settar á vogarskálar og þeim skipt eftir settum reglum, í skatt til yfirvalda, til vinnumanna og þeirra sem eiga akurinn. Jöfnuður og réttlæti, með tilliti til framlags, eru boðorð dagsins. Gróður skartar fögrum litum. Við klæðum okkur uppá, kjólar úr silki, hálsmen og armbönd úr gulli og silfri. Við höldum uppskeruhátíðir, dönsum, hlæjum, tölum og elskum. Gleðjumst með vinum. Listamenn skemmta. (23. september – 22. október).

Sporðdreki

Haustmiðja. Kraftar náttúrunnar draga sig innávið. Lauf falla af trjám. Landið er bert. Yfirborðið er kyrrt. Innra með eiga sér stað átök og umbreyting. Haustið er tími slátrunar. Horft er köldum augum til þess sem þarf að deyja. Unnið er úr afurðum. Vistum pakkað – breytt í orkuforða – til að undirbúa komandi vetur. Gor(blóð)mánuður til forna. Í mannlífinu leiðir vaxandi myrkur til þess að vitundin dregst inn á við. Ástvinir kúra saman meðan regn dynur á gluggum. (23. október – 21. nóvember).

Bogmaður

Haustlok. Dreifa þarf lífmagni um kerfið. Förulestir flytja vöru, hugmyndir og þekkingu – það sem skapað var á fyrstu átta fösum hringsins – frá einu heimshorni til annars, sbr. jólamánuður kaupmanna. Hreyfanleiki og frelsi til orðs og athafna ríkir. Að kvöldlagi safnast ferðalangar kringum elda, segja sögur, flytja fréttir og horfa upp í stjörnubjartan himinn; þekkingarleit blómstrar. (22. nóvember – 21. desember). 

Steingeit

Vetrarbyrjun. Náttúran gefur ekki af sér nýjar afurðir að vetri. Byggt er á uppskeru fyrri árstíða; hallir, ef vor og sumar hringsins var gjöfult, annars minni hús. Við njótum afraksturs. Höldum þakkargjörð. Um leið þarf að fara þarf vel með verðmæti. Alvara ríkir. Nauðsynlegt er að skipuleggja og nýta án sóunar það sem er til staðar. Vistir þurfa að duga fram á vor. Það búa 10 á bænum, 930 kg af korni í hlöðu, 120 dagar til vors. Hver maður má borða 775 grömm á dag. Skipulags, sjálfsaga og -afneitunar er krafist. (21. desember – 20. janúar). 

Vatnsberi

Hávetur. Það er kuldi í lofti. Froststillur ríkja. Flest annað en hugvit liggur í dvala. Tengsl við líkama og jörð eru lítil. Unnið er úr afrakstri hringsins. Fólk hittist og heldur þorrablót. Hugsað er aftur og horft er fram. Hvað getum við gert til að næsti hringur verði betri en sá síðasti? Við gerum tilraunir með nýsköpun, bætum það gamla og leitum nýrra leiða til að skapa betri framtíð. Það sem við gerum nú verður að tísku morgundagsins. (21. janúar – 19. febrúar).

Fiskur

Vetrarlok. Veður eru umhleypingasöm, mótuð af ólgandi veðraskiptum. Hringnum er að ljúka. Vitund mótuð á tímum endaloka er landamæralaus eins og hafið, alls staðar og hvergi. Takmarkalaust ímyndunarafl – draumar á lægra plani, tónlist, söngur og listir á hærri skala – gerir okkur kleift að lifa þennan síðasta spöl. Börn vetrarlokanna horfa yfir sviðið og vinna úr afrakstri hringsins. Hugsun þeirra er heildræn. Samkennd ríkir, nú þurfa allir að standa saman, nýta það sem enn er til. (19. febrúar – 20. mars).