STJÖRNUSPEKI VS STJÖRNUFRÆÐI

Stjörnuspeki Vs. Stjörnufræði

Tilefni þessa pistils er að reglulega birtist ‘frétt’ um að stjörnumerkin séu þrettán en ekki tólf og að Hrútar séu Fiskar, Naut Hrútar og þeir sem fæðast í lok Sporðdreka og byrjun Bogmanns séu í Naðurvaldi, o.s.frv.. ‘Frétt’ sem byggir á misskilningi og frjórri hugsun skapandi ‘vísindamanna’.

Set þetta inn til að skýring sé til staðar, opinberlega, á netinu. Þannig að næst þegar ‘fréttin’ um Naðurvald (Ophiuchus) birtist þá er hægt að vísa í þennan pistil.

Tveir dýrahringir

Sidereal & Tropical

Staðreynd málsins er að til eru tveir dýrahringir. Annars vegar Sidereal Zodiac og hins vegar Tropical Zodiac. Sá fyrri á himni, sá síðari á jörðu (svona til að einfalda málið). 

Á himni

Sidereal Zodiac vísar til stjörnumerkja (sólkerfa og vetrarbrauta) á himni sem í gegnum árþúsundir hafa færst til, séð frá jörðu, vegna snúnings og möndulhalla jarðar. Alls eru 88 slík stjörnumerki.

Hluti þessara merkja gegndu því hlutverki í stjörnuspeki, fyrir tvö þúsund árum, að vera vörður á himni í bakgrunni brautar jarðar um sól. Þær hjálpuðu fornmanninum að staðsetja árstíðirnar. 

Á jörðu

Tropical Zodiac byggir á árstíðunum, á jafndægrum og sólstöðum. Hrútur byrjar á vorjafndægrum, Krabbi á sumarsólstöðum, Vog á haustjafndægrum og Steingeit á vetrarsólstöðum. Í dag, gær og alltaf. Vestræn stjörnuspeki styðst við þennan dýrahring, þessi stjörnumerki. Ekki þau, sidereal, sem eru að færast til á himni séð frá jörðu.

Tólf ekki þrettán

Þeir sem gagnrýna stjörnuspeki á þeim forsendum að stjörnumerkin séu þrettán, tala um Naðurvald (Ophiuchus) og að Nautið sé í dag Hrútur o.s.frv., eru að rugla saman Sidereal og Tropical, himni og jörðu. 

Stjörnuspeki fjallar um krafta sem liggja innan sólkerfis okkar. Áherslan er á mannlífið. Stjörnuspeki fjallar ekki um himingeiminn og vetrarbrautir sem liggja í órafjarlægð fyrir utan sólkerfi okkar.

“Stjörnuspeki er stjörnufræði færð niður til jarðar, notuð til að skilgreina málefni manna.” Ralp Waldo Emerson (1803-1882)

Leikrit sem ekki er verið að sýna

Þeir sem gagnrýna stjörnuspeki á þeirri forsendu að stjörnumerkin hafi færst til og séu þrettán en ekki tólf, eru að gagnrýna leikrit sem ekki er verið að sýna í leikhúsi stjörnuspekinnar.

Gagnrýna Baltasar Kormák, svo notuð sé samlíking, fyrir kvikmynd sem hann hefur aldrei framleitt, handrit sem einungis er til í höfði gagnrýnandans. Ég er hræddur um að svipurinn á Balta yrði skrítinn ef hann væri spurður hvað honum fyndist um gagnrýni á hann, vegna myndar sem hann hefur aldrei komið nálægt.

Undir slíkri gagnrýni höfum við, ég og stjörnuspeki, þurft að sitja árum saman. Ég viðurkenni að þetta hefur oft verið pirrandi. Afþakka samt samúðarkveðjur. Uppgötvaði fyrir löngu að þetta er ekki mitt vandamál. Vandinn liggur hjá þeim sem gagnrýna hugmyndir í eigin höfði.

bestu kveðjur til allra vina okkar á jörðinni.